Eignarhaldsfélagið Kaupangur hefur verið kært til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra fyrir að hlunnfara þrotabú VBS fjárfestingarbanka, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þrotabú VBS telur sig eiga að hafa fengið greiðslu vegna samkomulags sem Kaupangur gerði við Kópavog í fyrravor um skil á lóðum í Glaðheimum. Í stað þess að greiða VBS það sem hann taldi sig eiga inni telur þrotabúið að Kaupangur hafi hirt hlut bankans, á bilinu 60-70 milljónir króna. Grunur er um að það athæfi standist ekki lög, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Vildu vangildisbætur

Forsaga málsins er sú að Kaupangur gerði samning við Kópavogsbæ um kaup á lóðum á Glaðheimasvæðinu í árslok 2006. Afhending lóðanna dróst hins vegar og eftir bankahrun tilkynnti Kaupangur að félagið ætlaði að rifta kaupsamningum og setja fram kröfur um að fá greiddar vangildisbætur sem áttu að nægja til að greiða allan kostnað sem fallið hafði á félagið vegna kaupanna. Kaupangur hafði þá greitt um hálfan milljarð króna út. Lóðirnar, með áföllnum fjármagnskostnaði, voru bókfærðar á 5,9 milljarða króna í ársreikningi Kaupangs fyrir árið 2009. Þar sem Kópavogsbær neitaði upphaflega að verða við riftunarbeiðni Kaupangs stefndi allt í dómsmál. Eigendur Kaupangs eru Jóhannes Sigurðsson og Bjarki Júlíusson.

Leituðu eftir samstarfi

Lögmenn Kaupangs höfðu meðal annars samband við VBS fjárfestingarbanka skriflega í lok árs 2009, á meðan bankinn var enn starfandi, og vildu fá hann með í sameiginlega málsókn gegn Kópavogsbæ, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Aðkoma VBS að málinu var sú að Eignasmári, félag í eigu Engilberts Runólfssonar, keypti JB Byggingafélag árið 2007 með fjármögnun frá VBS fjárfestingarbanka. Þegar halla fór undan fæti í íslenskum byggingariðnaði leysti VBS til sín dótturfélag JB Byggingafélags vegna skuldar sem stofnað hafði verið til við kaupin. Það félag hafði gert samning um kaup á landi á Glaðheimasvæðinu í samvinnu við Kaupang og lagt fé inn í þann samning. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórnendur VBS hafi lýst yfir vilja til að taka þátt í málsókninni með Kaupangi.

VBS í þrot

VBS fór síðan í þrot í byrjun mars í fyrra og bankanum var í kjölfarið skipuð slitastjórn. Nokkrum dögum áður, þann 25. febrúar 2010, samþykkti bæjarráð Kópavogs samkomulag við Kaupang um að skila þeim hluta Glaðheimasvæðisins sem félagið hafði samþykkt að kaupa árið 2007. Kópavogur greiddi félaginu til baka fjármuni.

VBS telur sig eiga hluta þeirra fjármuna, 60-70 milljónir króna, vegna ofangreindra ástæðna. Kaupangur var hins vegar eini þinglýsti eigandi eignanna og gat því gert umrætt samkomulag við Kópavogsbæ án aðkomu annarra sem áttu hagsmuni undir.