Hugsmiðjan mun nú í haust bjóða upp á sex námskeið í nýstofnaðri Vefakademíu sinni. Námskeiðin eru fyrir vefstjóra, markaðsstjóra og aðra sem vinna við vefmál en þau eru einnig fyrir alla þá sem hafa áhuga á að starfa innan þessa geira.

Í tilkynningu kemur fram að þau námskeið sem í boði verða eru Starf vefstjórans, Náðu árangri á Google með orðin að vopni, Undirbúningur vefverkefna, Grunntækni vefviðmótsins (HTML, CSS og JavaScript), Samfélagsmiðlar og Uppskrift að góðum innri vef.

Meðal kennara í Vefakademíunni má nefna Sigurjón Ólafsson, sem hefur m.a. kennt vefstjórn við Endurmenntun HÍ og í MA-námi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu, Finn Pálma Magnússon, sérfræðing í samfélagsmiðlum og vörustjóra hjá Marorku, Má Örlygsson sérfræðing í aðgengismálum og stjórnanda vefforritunarteymis Hugsmiðjunnar og Snorra Pál Haraldsson, sérfræðing í vefmælingum og vefforritara hjá Hugsmiðjunni. Ragnheiður Magnúsdóttir er framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar.