Tryggingamiðstöðin hefur fengið vottun um forgang III, frá fyrirtækinu Sjá ehf. og Öryrkjabandalagi Íslands, fyrir vef sinn www.tm.is . Ekkert annað íslenskt fyrirtæki, opinbert eða í einkarekstri, hefur fengið þessa vottun og er hún jafnframt sjaldgæf á heimsvísu. Með þessu er vefurinn því orðinn aðgengilegasti þjónustuvefur landsins. Fyrir tæpum tveimur árum hlaut TM vottun um forgang I og II fyrir nýjan og gjörbreyttan vef sinn og varð þá fyrsta einkafyrirtæki á Íslandi til þess að hlotnast slík vottun.

Forgangur III þýðir í stuttu máli að vefur TM er orðinn aðgengilegur fyrir flesta þjóðfélagshópa. Meðal nýrra möguleika eru myndskeið á táknmáli fyrir heyrnarlausa, til skýringar þar sem við á, textuð myndskeið og Netspjall TM þar sem heyrnarlausir geta spjallað við starfsmenn TM um tryggingamál. Þá getur nú lesblindur notandi búið til sína persónulegu stillingu sem framvegis verður á TM vefnum þegar hann opnar hann. Til viðbótar þessu er boðið upp á orðalista/orðabók á vefnum. Hljóðskrár eru einnig í boði í bílprófi TM sem ætti að henta þeim sem taka bílprófið munnlega. Einnig er hægt að velja auðlesið efni á vef TM svo eitthvað sé nefnt. Forgangur III felur að sjálfsögðu í sér að öll atriði samkvæmt forgangi I og II hafa verið uppfyllt.

Til þess að fá vottun um forgang I og II hafði TM meðal annars gert vefinn þannig úr garði að blindir og sjónskertir gátu notað talgervla og sérhönnuð lyklaborð með síðunni og stækkað letrið. Lesblindir gátu breytt um bakgrunnslit og hreyfihamlaðir vafrað án þess að nota músina. Til viðbótar þessu höfðu verið settar inn útskýringar á allar myndir, tenglaheiti gerð skýrari og stærð og tegund viðhengja látin koma vel fram. Enn fremur höfðu skammstafanir verið útskýrðar eða teknar út.

Engar reglur eru í gildi hérlendis um aðgengi að heimasíðum en í nágrannalöndum okkar er víða komið í lög að heimasíður opinberra stofnana sem og flestra fyrirtækja eigi að vera aðgengilegar öllum notendum, óháð fötlun eða getu. Níu af hverjum tíu vefjum eru óaðgengilegir hluta manna og tíu til tólf prósent þjóðarinnar hafa einhvers konar fötlun. Þessi hópur hefur jafnvel meiri not af heimasíðum en aðrir.

Vottun vefráðgjafarfyrirtækisins Sjá byggist á gátlistanum WAI (Web Accessibility Initiative) sem er alþjóðlegur staðall fyrir aðgengi á Netinu. Sjá hefur í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands sniðið listann að íslenskum aðstæðum og hefur hann verið prófaður af notendum með margs konar fötlun.