Ingunn Svala Leifsdóttir mun hefja störf sem nýr framkvæmdastjóri rekstrar hjá Dohop í byrjun næsta mánaðar. Dohop selur hugbúnað sem til dæmis flugfélög nýta til að víkka út leiðakerfi sín. Þannig getur viðskiptavinurinn flogið lengra en leiðakerfi flugfélaganna ná.

Í gegnum tíðina hefur Ingunn Svala starfað við fjármálastjórn hjá Actavis og síðar Kaupþingi ásamt því að hafa verið í eigin rekstri og fjárfestingum meðfram setu í stjórnum fyrirtækja. Í dag á hún sæti í stjórn stjórn Kviku banka, Slippsins Akureyri, Ósa og Parlogis.

Hún minnist þess þegar hún var spurð vegna stjórnarsetu hvað þessi unga stúlka vissi um þennan rekstur þegar hún var kjörin í stjórn eitt sinn. „Ég gekkst við því að vita ekkert um kjarnastarfsemi viðkomandi félags, en benti aftur á móti á að ég væri fljót að læra og hefði víðtæka alþjóðlega reynslu úr atvinnulífinu sem hlyti að nýtast hér sem og annars staðar. Þær urðu ekki fleiri spurningarnar að þessu loknu. En sem betur fer er þetta viðhorf á hröðu undanhaldi og það er trú mín að það sé fyrirtækjum til hagsbóta að við stjórnarborðið sitji fólk með ólíkan bakgrunn og reynslu til að fá breiðari umræður um fyrirtækin.

Nánar er rætt við Ingunni Svölu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.