Hæstiréttur í Bretlandi hefur úrskurðað að veðhafar megi ganga að skuldurum húsnæðislána bregðist tvær afborganir í röð.

Með þessu er áréttuð löggjöf frá 1925, sem leyfir lánveitendum að ganga svo rösklega til verks án þess að fá sérstakan dómsúrskurð til þess.

Dómarinn hafði að engu rök húseiganda, sem sagði að nauðungarsala á húsi hans raskaði heimilisfriði og hefði að engu réttindi hans samkvæmt mannréttindalögum þar í landi, sem eiga að tryggja fólki „friðsamlega nýtingu eigna sinna".

Húseigendurnir höfðu kaupleigusamning, sem þeir stóðu ekki í skilum með, en nýr eigandi lánsins krafðist útburðar vegna vanefnda.

Í Bretlandi hefur hefðin verið sú að óskað sé dómsúrskurðar um hvern útburð og nauðungarsölu. Lánveitandinn sérhæfði sig í svonefndum undirmálslánum á fasteignamarkaði, en þau falla nú umvörpum.

Lánveitandinn getur nú leyst eignina til sín mun fyrr en ella og um leið gert eign lántakandans að engu.

Ekki er talið ólíklegt að lögunum verði breytt í framhaldi af þessu, en stjórnmálamenn úr öllum flokkum hafa lýst áhyggjum af dóminum og því fordæmi, sem í honum felst.