„Það er frábært fyrir byrjendur að læra fyrst að nota skandinaviska undirhandarkastið með tvíhendunni,“ segir Hilmar Hansson, í veiðibúðinni Veiðiflugur við Langholtsveg. Hann er byrjaður að skrá fólk á kastnámskeið í maí sem hann stendur að ásamt fleirum. Þar verður farið í undirstöðuatriðin við að kasta tvíhendunni.

Hilmar segir að reyndir tvíhendukastarar sæki líka námskeiðin til að „rétta sig af“ og laga vitleysur eða þjálfa færnina fyrir sumarið. Mikilvægt sé að læra réttu handtökin í upphafi til að kastið verði áreynslulítið. Þessi kasttækni byggist ekki á krafti heldur tækni og fólk verkjar ekki í skrokkinn að loknum löngum og góðum veiðidegi.

„Þetta kast er miklu einfaldara en Spey, sérstaklega þegar notaðir eru skothausar. Þá er auðveldara að ná línunni út og flugan er fljótt farin að veiða,“ segir Hilmar. Sjálfur hefur hann lengi notað skandinaviska kastið og veitt með því í Rússlandi og víðar.

Einhendan líka

Ekki verður eingöngu einblínt á tvíhenduna á námskeiðunum. Hægt er að velja um að læra bæði að kasta tvíhendu og einhendu eða annað hvort. Hvert námskeið er tvö kvöld frá klukkan 19 til 22. Fyrra kvöldið verða tvíhenduköstin æfð í Soginu og seinna kvöldið verður einhendunni kastað við Rauðavatn.

Þrír kennarar verða á hverju námskeiði sem hver um sig hefur mikilli reynslu að miðla. Hámarksfjöldi er tólf á hvert námskeið og því mest fjórir nemendur á hvern kennara. Með Hilmari verða Klaus Frimor og Óskar Páll, sem báðir eru lærðir kastkennarar. Klaus hefur kennt fluguköst um allan heim í áraraðir og Óskar Páll útskrifaðist nýverið sem kastkennari frá AAPGAI í Bretlandi sem er einn virtasti veiðiskóli heims.