Í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun kemur fram að Stangveiðifélag Reykjavíkur, (SVFR), hefur tryggt sér leigu á Norðurá til og með ársins 2010. Þetta var samþykkt á mánudagskvöld á félagsfundi Veiðifélags Norðurár. Stjórn SVFR er ánægð með að hafa tryggt sér ána, en um tíma leit út fyrir að barist yrði um Norðurá í opnu útboði. Bjarni Ómar Ragnarsson, formaður SVFR, segir að þetta sé lengsti samningur sem félagið hafi gert um leigu á Norðurá í langan tíma og það sé ánægjulegt.

SVFR greiðir 52 milljónir fyrir næsta veiðitímabil - sumarið 2005 - en fyrir veiðina 2006 verður félagið að borga 58 milljónir króna. Fram til ársins 2010 verður leigan síðan bundin vísitöluhækkunum. Bjarni segir að leiga á ýmsum góðum veiðiám hafi farið hækkandi að undanförnu, til að mynda á Grímsá og Þverá, og þessi leigusamningur sé í takt við þær hækkanir. En munu veiðileyfin hækka? "Já, en stjórn SVFR hefur ákveðið að halda þeim í skefjum eins og hægt er," segir Bjarni en það er nánast orðið náttúrulögmál að veiðileyfi hækki milli tímabila.