„Ég hefði aldrei farið frá málinu nema af því að ég fékk samþykki skjólstæðings míns fyrir því. Ég trúi því og treysti að hann fái aðstoð,“ segir lögmaðurinn Gestur Jónsson. Hann stendur fast á því sem hann tilkynnti í gær að hann sé hættur að verja Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings, í Al Thani-málinu.

Dómari í málinu synjaði beiðni hans í gær. Ragnar H. Hall, verjandi Ólafs Ólafssonar í sama máli, sagði sig sömuleiðis frá málinu.

Gestur sagði í samtali við vb.is í dag ekki vita hvort Sigurður sé kominn með nýjan verjanda en bætti við: „Ég vona það.“