Viðskiptablaðið fékk ekki afhentar upplýsingar hjá embætti ríkislögreglustjóra um skotvopnaeign lögreglunnar þegar eftir þeim var leitað þann 2. október 2014. Blaðið beindi ítarlegri fyrirspurn í níu liðum um skotvopnaeign lögreglunnar til embættisins, en fékk ekki svör við þeim.

Í svari sem barst tæpum mánuði síðar var því haldið fram að Viðskiptablaðið þyrfti að leita til einstakra lögregluembætta varðandi upplýsingarnar. Var jafnframt vísað til skýrslu þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem kom út árið 2012.

Höfðu upplýsingar en veittu ekki

Í reglum um valdbeitingu og valdbeitingartæki lögreglu, sem nú hafa verið gerðar opinberar , kemur fram í 21. gr. þeirra að ríkislögreglustjóri haldi sérstaka skrá um vopnaeign lögreglu. Í greininni segir:

Hjá ríkislögreglustjóranum skal haldin sérstök skrá um vopnaeign lögreglu. Í hana skrá lögreglustjórar upplýsingar um vopn lögregluliða og útgefin lögregluskotvopnaleyfi.

Af ofangreindu má ráða að embættið veitti ekki upplýsingar um skotvopnin, þrátt fyrir að halda sérstaka skrá um þau. Vísaði embættið fyrirspurninni frá sér og benti á að leita þyrfti til einstakra lögregluembætta.

Báðu um skriflega fyrirspurn

Viðskiptablaðið óskaði upphaflega eftir upplýsingum um skotvopnaeign íslenskra lögregluembætta símleiðis, en var bent á að senda skriflega fyrirspurn. Var það gert þann 2. október, þegar blaðið beindi eftirfarandi spurningum til embættis ríkislögreglustjóra:

Með vísan í símtal okkar vil ég inna eftir upplýsingum um skotvopnaeign lögregluembætta á Íslandi. Ég beini því eftirfarandi fyrirspurnum til embættisins:


1.       Hvaða embætti innan lögreglunnar, þar með talið Lögregluskóli ríkisins og Ríkislögreglustjóri, eiga skotvopn?


2.       Er embætti Ríkislögreglustjóra kunnugt um að einhverjar aðrar opinberar stofnanir, sem ekki teljast til lögregluembætta, fangelsa, eða Landhelgisgæslu, eigi eða hafi aðgang að skotvopnum?
a.       Ef já, hvaða opinberu stofnanir?


3.       Eiga embætti innan lögreglunnar sjálfvirka riffla?
a.       Ef já, hvaða embætti?


4.       Upplýsingar óskast um skotvopnaeign lögreglu, sundurliðaðar eftir fjölda vopna eftir tegund, hleðslumáta og í eigu hvaða embættis skotvopnin eru. Jafnframt óskast upplýsingar um hversu mikið af skotfærum hvert og eitt embætti á. (Í viðhengi er skjal sem nota má til stuðnings)
a.       Ef embættið kýs að verða ekki við fyrirspurninni í þeirri mynd sem hún er lögð fram að ofan, óskast upplýsingar um heildarfjölda skotvopna í eigu allra lögregluembætta, sundurliðaðar eftir tegund og hleðslumáta.


5.       Hversu mörg skotvopn hafa verið keypt af lögreglu á hverju ári frá árinu 2000? Svar óskast sundurliðað eftir tegund skotvopna og hleðslumáta.


6.       Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til kaupa á skotvopnum handa lögreglu á hverju ári frá árinu 2000?


7.       Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til kaupa á skotfærum handa lögreglu á hverju ári frá árinu 2000?


8.       Undir hvaða útgjaldategund fellur kaup á skotvopnum og skotfærum á vefnum www.rikisreikningur.is ?
a.       Falla kaup á öðrum vörum eða þjónustu undir sömu útgjaldategund og skotvopn og skotfæri falla í?


9.       Hvaða reglur, ef einhverjar, gilda um notkun, meðferð eða vörslu lögreglu á skotvopnum?

Svar berst mánuði síðar

Svar barst tæpum mánuði síðar, þann 28. október síðastliðinn. Þar sagði:

Yfirlitstöflu um skopvopnaeign lögreglu er að finna í skýrslu innanríkisráðherra 2012 um stöðu lögreglunnar. Þar koma fram upplýsingar um fjölda og gerð vopna hjá hverju lögregluembætti.

Hvað varðar frekari upplýsingar um einstök lögregluembætti þarftu að leita til þeirra. Það gildir einnig um upplýsingar um hvenær kaup einstakra embætta voru gerð og skotfærakaup.

Innkaup búnaðar eru skráð á tegundarlykil 5819 önnur áhöld og tæki. Skotfærakaup eru færð á tegundarlykil 5399 ýmsar sérgreindar vörur. Á tegundarlyklana 5819 og 5399 er margt annað fært. Um upplýsingar um vefinn ríkisreikningur verður þú að hafa samband við ábyrðaraðila hans.

Reglur um notkun, meðferð og vörslu lögreglu á skotvopnum eru trúnaðarreglur gefnar út af ráðherra og vísast á ráðuneytið varðandi það.

Varðandi aðrar opinberar stofnanir vísast til þeirra.

Viðskiptablaðið beindi því næst annarri fyrirspurn til embættisins og spurði sérstaklega hvort embættið byggi yfir upplýsingum um skotvopnaeign einstakra lögregluembætta. Þar sagði:

Takk fyrir svarið.

Í framhaldinu vil ég athuga hvort embætti Ríkislögreglustjóra hafi eða hafi ekki upplýsingar um skotvopnaeign einstakra lögregluembætta umfram það sem kemur fram í skýrslu innanríkisráðherra frá 2012?

„Best" að spyrja önnur embætti

Degi síðar barst annað svar frá embættinu á þá lund að „best" væri að leita til einstakra lögregluembætta. Orðrétt sagði:

Það er best fyrir þig að leita til einstakra lögregluembætta til að afla þessara upplýsinga.

Annað kom ekki fram í svari embættisins. Upplýsingarnar voru ekki veittar

Stjórnvöld sökuð um leyndarhyggju

Eftir að upp komst að lögregluyfirvöld og Landhelgisgæslan hefðu eignast vopn sem áður höfðu verið í eigu norska hersins reyndist fyrst um sinn erfitt að fá skýr svör við því hversu mörg vopnin væru, hvað þau hefðu kostað, hvenær hefði verið greitt fyrir þau, hver hefði átt frumkvæði að því að fá þau hingað til lands, hvenær þau skyldu notuð, með hvaða hætti og aðra þætti málsins.

Voru stjórnvöld meðal annars sökuð um leyndarhyggju og að veita ekki greiðan aðgang að upplýsingum málsins . Þá töldu ýmsir stjórnmálamenn að „vopnvæðing" lögreglunnar ætti ekki að fara fram fyrir luktum dyrum.