Vélar & Þjónusta hafa tekið við umboði á New Holland vinnuvélum og landbúnaðartækjum. Ævar Þorsteinsson eigandi Kraftvéla og Eiður H. Haraldsson fyrrum forstjóri og eigandi í Háfelli ehf. kynntu þetta m.a. fyrir starfsmönnum og velunnurum fyrirtækisins í gær. Þar kynnti Eiður einnig þrjá nýja starfsmenn sem áður störfuðu hjá Vélaveri og nýi framkvæmdastjórinn Viktor Karl Ævarsson afhenti þeim formlega lykla að nýja vinnustaðnum.

Vélar & Þjónusta er yfir 30 ára gamalt fyrirtæki, en komst í eigu Kaupþings þegar það varð gjaldþrota árið 2004. Ævar og Eiður segja að kaupin hafi borið mjög brátt að.

„Við vorum eiginlega orðnir eigendur áður en við vissum af,” sagði Eiður í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins. Hann sagði að nýir eigendur legðu af stað með bjartsýnina að vopni þrátt fyrir dapurt ástand í þjóðfélaginu. Þar yrði byggt á langri reynslu og þekkingu nýrra eigenda og starfsmanna fyrirtækisins. Þá yrði reynt að styrkja stoðir fyrirtækisins enn frekar með því að draga að fleiri vörumerki.

New Holland er öflugt fyrirtæki í framleiðslu dráttavéla og landbúnaðartækja, en framleiðir einnig fjölbreyttar gerðir annarra vinnuvéla. Hefur New Holland umboðið verið í höndum Sturlaugs Jónssonar & Co í Reykjavík síðan 2005. Það fyrirtæki var hins vegar komið í rekstrarvandræði í sumar, en unnið hefur verið að endurreisn þess í Hafnarfirði.

Ævar sagði að reynt verði að gæta ýtrustu hagkvæmni í rekstri. Þannig mun fyrst í stað verða náin samvinna við vélaverkstæði Kraftvéla varðandi viðgerðarþjónustu á tækjum og búnaði sem Vélar & Þjónusta selur. Sagði Ævar jafnframt að þrátt fyrir að þeir félaga réðust af bjartsýni í kaupin á þessu fyrirtæki á þessum tímapunkti þá gerðu menn fulla grein fyrir að dapurt ástand eigi eftir að ríkja í þjóðfélaginu í nokkur ár. „Þessu hlýtur þó einhvern tíma að linna,” sagði Ævar.