Dýrasta einbýlishús í heimi er 27 hæðir, staðsett í Mumbai á Indlandi og er í eigu milljarðarmæringsins Mukesh Ambani, sem telst fimmti ríkasti maður heims með um 43 milljarða dollara auðlegð. Eiginkona hans, Nita Ambani, hefur ráðið miklu um innviði turnsins, en áætlaður kostnaður við hann er um 2 milljarðar dollara, eða sem svarar um 148 milljörðum íslenskra króna. Næst dýrasta einkaheimili heims kemst ekki í hálfkvisti við höll Ambani, en það er þriggja hæða íbúð efst í Pierre Hotel í New York, sem verðlögð er á 70 milljónir dollara.

Engar tvær hæðir eins

Byggingu turnsins í Mumbai á að ljúka í janúar næst komandi eftir fjögurra ára framkvæmdir. Fullbúinn verður hann um 122 þúsund fermetrar að gólffleti og 168 metra hár, en til samanburðar má geta þess að Hallgrímskirkja er 74,5 metra há. Engar tvær hæðir eru eins, hvorki hvað hönnun varðar eða efnisnotkun. Ef að stál og gler er t.d. notað á níundu hæð er það ekki að finna á elleftu hæð, svo dæmi séu tekin. Á fyrstu hæð verður anddyri sem liggja að níu lyftum annars vegar og hins vegar tvöföldum stiga sem liggur niður í danssal þar sem kristalljósakrónur þekja 80% af silfurhúðuðu loftinu.

Á meðal annarra innréttinga í kjallara turnsins má nefna bari, gróðurhús, hvíldarherbergi fyrir öryggisverði og fylgdarlið og snyrtiherbergi. Á efri hæðum er m.a. að finna kvikmyndasali, vínherbergi, sundlaugar, yoga-sali, opna garða og svo kallað ís-herbergi, þangað sem íbúar og gestir þeirra geta flúið indversku molluna og notið þess að sitja í snjóflygsum sem útbúnar eru í fullkomnum vélbúnaði.

Í frétt Forbes um húsið kemur ekki fram hversu margir tilheyra fjölskyldu Ambani, en þó er ljóst að afar rúmgott verður um íbúana.