Velta á fasteignamarkaði í síðustu viku nam 4,6 milljörðum króna og jókst hún um 26% á milli vikna, segir greiningardeild Landsbankans.

?Í vikunni þar á undan var 13% samdráttur, en miklar sveiflur eru á milli vikna í veltu á fasteignamarkaði. Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu var 179 sem er mestur fjöldi viðskipta í einni viku frá því um miðjan júní á þessu ári. Litlu munar þó á síðustu viku og þriðju viku nóvember þegar salan tók skyndilegan kipp,? segir greiningardeildin.

Greiningardeildin sagði í síðustu viku að það sæist jákvæður viðsnúningur í breytingu á milli ára á fjögurra vikna meðalveltu eftir samdrátt frá því í byrjun júní.

"Þessi þróun hélt áfram með lítilháttar aukningu á fjögurra vikna veltu á milli ára. Þó er nauðsynlegt að hafa í huga að aukningin var aðeins 2% í síðustu viku og 3% fyrir tveimur vikum. Þegar horft er á ársbreytingu tólf vikna meðalveltu sést að samdrátturinn heldur áfram að minnka á milli vikna, en breytingin er hæg," segir hún.