Á Íslandi er starfsfólk félaga í eigu Baugs Group um 6.000 þúsund talsins, verslanir yfir 100, velta fyrirtækjanna um 100 milljarðar króna, og EBITDA hagnaður félaganna á Norðurlöndunum um 8 milljarðar. Á Íslandi á Baugur Group stóran hlut í Högum, stærsta matvöru- og sérvörufyrirtæki landsins. Meðal annarra innlendra fjárfestinga eru eignarhlutir í Húsasmiðjunni, Og Vodafone, Norðurljósum, fasteignafélaginu Stoðum, Allianz og Tæknival. Þetta kemur fram í ávarpi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, í nýju fréttabréfi félagsins.

Þá jók félagið umsvif sín á Norðurlöndunum með því að fjárfesta í hinu sögufræga danska verslunarfyrirtæki Magasin Du Nord, en fyrirtækið mun heyra undir innlendar fjárfestingar Baugs Group. Samfara aukinni áherslu á Bretlandsmarkað seldi félagið á árinu innlendar eignir á borð við Vátryggingafélagið Vörð, Lyfju og Skífuna, auk hlutar félagsins í Icelandair.

Með auknum umsvifum utan Íslands urðu nokkrar breytingar á skipulagi félagsins i á árinu. Skrifstofa Baugs Group við New Bond Street í London efldist og er nú meginstarfsstöð félagsins að því er varðar erlendar fjárfestingar. Fyrrum endurskoðandi félagsins var ráðinn fjármálastjóri þess og hefur hann að setur á Íslandi.