Velta í dagvöruverslun jókst um 18% í febrúar síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi. Á milli mánaðanna janúar og febrúar jókst velta dagvöruverslana um 3,4% á breytilegu verðlagi og um 2,5% á föstu verðlagi.

Verð á dagvöru hækkaði um 0,9% frá janúar til febrúar. Óvenjulegt er að raunaukning verði á veltu dagvöruverslana á milli janúar og febrúar. Hefur það ekki gerst frá því að Rannsóknasetur verslunarinnar hóf að birta vísitöluna 2002 en þessar upplýsingar koma fram á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar (RV).

Mest aukning í sölu áfengis

Þar kemur einnig fram að sla áfengis jókst um 20,1% í febrúar miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi og um 18,4% föstu verðlagi. Í febrúar var velta áfengisverslunar 28,2% meiri en í janúar þar á undan miðað við breytilegt verðlag og á föstu verðlagi var aukningin 25,6%. Þessi aukning á áfengissölu milli janúar og febrúar er tvöfalt meiri en áður hefur sést frá árinu 2002.

Í fataverslun jókst veltan um 7,3% í febrúar miðað við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi en minnkaði um 3,3% á föstu verðlagi. Veltan minnkaði um 23,6% í febrúar miðað við janúar þar á undan á breytilegu verðlagi og um 30,9% á föstu verðlagi. Skóverslun jókst í febrúar um 12,8% á milli ára en minnkaði um 23,6% ef miðað er við janúar þar á undan á breytilegu verðlagi. Verð á fötum í febrúar hækkaði um 10,9% frá því í febrúar í fyrra en verð á skóm hækkaði um 18,3% á sama tímabili samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Í febrúar minnkaði velta í húsgagnaverslun um 11,1% á breytilegu verðlagi miðað við janúar á undan og um 12,4% á föstu verðlagi.

Þá var 38,1% aukning á nýskráningum bíla í janúar-febrúar miðað við sömu mánuð í fyrra.

„Greinilegt er á þessum tölum að útsölur sem hófust í janúar var lokið í febrúar,“ segir á vef RV.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 19,7% á milli febrúar á þessu ári og febrúar í fyrra á verðlagi hvers árs.

Munar um hlaupársdag

„Ein skýring þess að velta í dagvöruverslun jókst á milli janúar og febrúar er að í ár er hlaupár sem felur í sér þá óvenjulegu staðreynd að í febrúar voru fimm föstudagar en fjórir í janúar. Samt sem áður virðist aukin velta á tveimur fyrstu mánuðum ársins miðað við árið áður vera í samræmi við aðrar vísbendingar um aukna einkaneyslu. Þannig var kreditkortavelta heimilanna 26,6% meiri í janúar sl. en í janúar í fyrra,“ segir á vef RV.