Kórónuveiran hafði töluverð áhrif á viðskipti á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í aprílmánuði sem nú er að ljúka. Velta á markaðnum nam 24,5 milljörðum króna og dróst saman um 40,6 milljarða eða 62% frá sama mánuði í fyrra.

Samanlögð velta síðustu 12 mánaða nemur nú 634,3 milljörðum og er 18,7% hærri en hún var á sama tímabili fyrir ári síðan. Fram að apríl hafði velta á markaðnum aukist í níu mánuði í röð samfleytt og hafði í lok mars ekki verið hærri yfir 12 mánaða tímabil frá hruni.

Mest velta í mánuðinum var með bréf Marel eða tæplega 7,3 milljarðar auk þess sem tveggja milljarða velta var með bréf Símans og 1,8 milljarða velta með bréf VÍS.

Þrátt fyrir að veltan hafi dregist umtalsvert saman frá sama mánuði í fyrra er hins vegar athyglisvert að fjöldi viðskipta jóskt um 9,4% á milli ára en þau voru alls 3.260 í mánuðinum. Þar spilar þó Icelandair töluverða rullu en viðskipti með bréf félagsins voru 1.080 talsins í mánuðinum í 615 milljóna veltu.

Grænn mánuður að baki

Þegar litið er á þróun hlutabréfaverðs í mánuðinum hækkaði Úrvalsvísitalan um 7,8%. Alls hækkuðu 12 félög þar sem mest hækkun var á bréfum Marel eða 13,3% en þá hækkuðu bréf Sjóvá um 12,8% og bréf Símans um 11,8%.

Alls lækkaði gengi bréfa sjö félaga þar sem langmest lækkun var á bréfum Icelandair Group eða 35,9%. Þá lækkuðu bréf Reitar um 4,1% og bréf Regins um 3,7%.