Átta sinnum meiri vöxtur varð í veltu dagvöruverslunar á Íslandi en að meðaltali í ESB löndunum frá maí 2004 til maí 2005. Vöxturinn hér var 13% á föstu verðlagi en 1,6% í ESB löndunum. Þannig hafa Íslendingar aukið neyslu í mat og drykk margfalt meira en íbúar ESB landanna á síðustu mánuðum. Velta í dagvöruverslun hér á landi var 14,3% meiri í júní sl. en í sama mánuði árið 2004 og því líklegt er að forskotið í neysluaukningu okkar samanborið við ESB löndin haldi áfram að aukast.

Þessar upplýsingar koma fram þegar bornar eru saman upplýsingar Rannsóknaseturs verslunarinnar, sem birtir mánaðarlega veltutölur dagvöruverslunar á Íslandi og Eurostat, hagfræðistofnun ESB, sem birtir sambærilegar tölur fyrir aðildarlönd sambandsins. Greint er frá þessu í fréttablaði Samtaka verslunar og þjónustu.

Vísitala dagvöruverslana sýnir hversu miklu neytendur verja til kaupa á mat og öðrum vörum sem seldar eru í dagvöruverslunum, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Svo virðist sem neytendur hafi varið hærri fjárhæðum til kaupa á þessum vörum þrátt fyrir lægra verð á matvörum þegar verðsamkeppnin stóð sem hæst fyrr á þessu ári og gengisáhrif ollu lægra verði á innflutt matvæli. Þegar verðstríðið rénaði nokkuð í vor hélt veltuaukningin áfram að vaxa og engin merki virðast um að það breytist í nánd. Þetta gefur til kynna að landsmenn geri betur við sig í mat og drykk en áður og kaupi jafnframt dýrari matvörur.

Mun meiri veltuaukning hefur orðið í dagvöruverslun á þessu ári en nokkru sinni frá því farið var að mæla vísitöluna árið 2001 hér á landi eins og kemur fram á vefsíðu Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Áfram mikil veltuaukning áfram í dagvöru
Samkvæmt nýjustu mælingum Rannsóknaseturs verslunarinnar var velta í dagvöruverslun 10,2% meiri í júlí síðastliðnum en í sama mánuði árið 2004, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Meðal skýringa á þessari blómlegu verslun telur Rannsóknasetrið annars vegar vera af afar mikilli þenslu sem er bæði drifin áfram af mikilli eftirspurn heimilanna í landinu og stóriðjufjárfestingu. Einnig telur Rannsóknasetrið að verðlag sé tiltölulega hagstætt neytendum, sérstaklega í dagvöruverslun, en samkvæmt mælingu Hagstofunnar var verð á dagvöru í júlí 5,1% lægra en í sama mánuði árið áður.