Áburðarverksmiðjan sendi bréf til bænda á dögunum og bauð þeim áburð á 25% hærra verði en verðskrár síðasta vors sögðu til um.

Um er að ræða nokkur þúsund tonn sem ekki seldust í vor og liggja í vörugeymslum fyrirtækisins.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins.

Þar segir að í bréfinu spáir Áburðarverksmiðjan því að áburðarhækkun á næsta ári nemi 70-100% (m.v. markaðsverð í dag) þegar tekið hefur verið tillit til gengisbreytinga, fjármagnskostnaðar og ekki síst hrávöruverðs sem fer stöðugt hækkandi að sögn Bændablaðsins.

Í fréttinni kemur fram að Pétur Pétursson markaðsstjóri Áburðarverksmiðjunnar segir það borga sig fyrir bændur að birgja sig upp af áburði nú en viðskiptaskilmálarnir eru þeir að bændum bjóðast allt að 6 mánaða greiðslusamningar. Þeir fá áburðinn afhentan heim á hlað en aksturskostnaður er nú 1.000 kr. á tonnið sem er 100 krónum hærra en síðasta vor. Gert er ráð fyrir að allur áburður verði afhentur í september og gjalddagi verður 15. október.