Verð á gulli stendur nú í 958,47 dollara únsan sem er með því hæsta sem sést hefur það sem af er maí. Hefur gullverð verið að hækka nær stöðugt frá byrjun mánaðarins þegar únsan stóð í rúmum 910 dollurum.

Sérfræðingar hafa á undanförnum mánuðum verið að spá því að gullverð kynni að fara yfir 1.000 dollara markið í júní og komast í áður óþekktar hæðir. Hafa menn bent á að aukin gullkaup ýmissa þjóða eins og Rússa og þjóða í Suður-Ameríku muni valda mikilli umframeftirspurn á markaði. Eru þessi gullkaup m.a. sögð lýsandi fyrir það vantraust sem ríki gagnvart fjármálakerfi heimsins.