Svo virðist sem framhald sé á verðhækkun íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Um 300 samningar um viðskipti með íbúðir á svæðinu hafa skilað sé inn til Fasteignamats ríkisins í maí en upplýsingar um þessa samninga finnast á fmr.is. Má af þeim ráða að verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 2,5% á milli apríl og maí í ár. Mest virðist hækkunin í Reykjavík eða 3,6% segir í Morgunkorni íslandsbanka.

Þetta er mikil hækkun og langt umfram það sem almennt má reikna með. Upplýsingarnar benda jafnframt til þess að verð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 20% á fyrstu fimm mánuðum ársins. Það er mjög mikið en verðmæti íbúðarstofnsins samkvæmt fasteignamati var 1.158 ma.kr. og hefur því aukist um 256 ma.kr. frá áramótum eingöngu vegna verðhækkunar. Að meðaltali var staðgreiðsluverð á hvern fermetra í fjölbýli í Reykjavík 190 þúsund í maí samanborið við 160 þús. kr. í lok síðasta árs. Þetta merkir að 100 fm. íbúð sem kostaði 16 m.kr. í lok síðastliðins árs kostar nú 19,5 m.kr.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.