Hlutabréfaverð og virði félaga þarf ekki að fara hönd í hönd, að sögn Einars Guðbjartssonar, dósents í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands. Verðið er háð stað, stund og markaðsaðstæðum en virði er núvirði ásamt framtíðarhagnaði (e. Present worth and future benefit). Virði er því framreiknað inn í framtíðina.
Einar hélt hádegisfyrirlestur í gær og flutti hugleiðingu um virði og verð félaga. "Hæsta verð á markaðnum getur vel verið langt frá virðinu," sagði hann. Ákveðin andstaða er í verði og virði, þegar það er borið saman, því eiginleikinn við útreikningana er mjög mismunandi. "Annars vegar er það reiknað inn í framtíðina og hitt pósitíft, akkúrat það sem er að gerast í dag," sagði Einar.


Jafnframt velti hann upp spurningunni hvort öll hugtökin sem bera viðskeytið virði séu í raun og veru virði: Markaðsvirði, gangvirði (e. Fair market value), reikningsskilavirði (e. Accounting value), en lagði ekki dóm á það sjálfur.
Þá sagði hann að þó svo að aukið upplýsingastreymi bæti verðmyndun á hlutabréfamarkaði, þurfi betri virðismyndun ekki að fylgja í kjölfarið.