Verðbólga mældist 14,5% í ágúst og hefur ekki verið hærri síðan júní 1990. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,9% milli mánaða í ágúst, sem var nokkuð minni mánaðahækkun en greiningardeildir viðskiptabankanna reiknuðu með. Verðabólga án húsnæðis hækkaði um 14,6% síðastliðna 12 mánuði og er því húsnæðisliður vísitölunnar farinn að virka til lækkunar á verðbólgu.

Föt og skór hækkuðu um tæp 5% frá fyrri mánuði en greiningardeildirnar höfðu reiknað með allt að 10% hækkun vegna útsöluloka og skýrir þessi liður ofmatið í spám bankanna. Áhrif útsöluloka eiga þar með enn eftir að ganga til baka og hafa greinendur því hækkað verðbólguspár sínar fyrir næstu tvo mánuði. Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólgan muni hækka um 1,3- 1,5% í næsta mánuði og tólf mánaða verðbólga muni þá ná hámarki, haldist gengi krónunnar stöðugt. Þess má geta að stórir gjalddagar jöklabréfa eru fram undan í haust og er óvissan í gengisspám því til lækkunar krónunnar.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .