Verðbólga mæld með samræmdri vísitölu neysluverðs fyrir Ísland lækkaði úr 7,1% í 6,1% milli ágúst og september, segir greiningardeild Landsbankans.

?Verðbólgan hér á landi á þennan mælikvarða var 1,6% í september í fyrra. Helsti munurinn á samræmdri vísitölu og vísitölu neysluverðs er sá að sú fyrrnefnda er án húsnæðis og opinberrar þjónustu," segir greiningardeildin.

Hún segir að verðbólga á evrusvæðinu, mæld með samræmdu vísitölunni, lækkaði úr 2,3% í ágúst í 1,7% í september.

?Fyrir ári var tólf mánaða verðbólgan 2,6% og hefur því lækkað um tæplega eina prósentu. Mánaðarbreyting vísitölunnar var engin á milli mánaða en hér á landi hækkaði vísitalan um 0,7% milli mánaða.

Ef horft er til allra Evrópusambandslandanna 25 var verðbólgan í september heldur hærri en á evrusvæðinu, eða 1,9%," segir greiningardeildin.


Mynd fengin frá Landsbankanum