Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að verðbólga (hækkun vísitölu neysluverðs) mælist 0,5% á milli október og nóvember en gangi spá deildarinnar eftir lækkar 12 mánaða verðbólga úr 9,7% niður í 8,4% en í nóvember í fyrra hækkaði VNV um 1,7% milli mánaða.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en hækki verðlag um það bil jafn mikið í nóvember og desember má búast við að 12 mánaða verðbólga í árslok verði 7,3%.

„Í mánuðinum er ólíklegt að komi til stórvægilegra hækkana á neinum af undirliðum vísitölunnar, en við spáum nokkurri verðhækkun á mat- og drykkjarvörum,“ segir í Hagsjá.

„ Mikil óvissa er á húsnæðisliðnum sem endranær, en síðustu þrjá mánuði hefur húsnæðisliðurinn hækkað á milli mánaða eftir nær samfellda lækkun frá áramótum. Þá hefur eldsneytisverð lækkað nokkuð frá síðustu verðkönnun Hagstofunnar sem mun draga út hækkun vísitölunnar (VNV) þennan mánuðinn.“   Þá segir hagfræðideildin að þrátt fyrir að 0,5% sé ekki ýkja há tala verði að hafa í huga að hækki verðlag að meðaltali um 0,5% á mánuði í heilt ár jafngildir það ríflega 6% verðbólgu á ári. Það sé nokkuð mikil hækkun þegar hún er skoðuð í samhengi við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Til að verðbólgumarkmið Seðlabankans haldi má hækkun verðlags ekki vera meira en 0,2% á mánuði að meðaltali yfir tólf mánaða tímabil.

Sjá nánar í Hagsjá.