Hagstofan hefur ákveðið að breyta útreikningi á meðalvöxtum í húsnæðislið vísitölu neysluverðs og tekur breytingin gildi í maí 2005. Miðast vextirnir við meðaltal tólf mánaða í stað meðaltals fimm ára eins og verið hefur frá ágúst 2004. Áhrifin á vísitöluna eru 0,45% til lækkunar vísitölunnar í maí 2005.

"Þetta merkir að miðað við okkar spá sem hljóðaði upp á 0,4% hækkun vísitölu neysluverðs á milli apríl og maí mun vísitalan lækka um 0,05%. Tólf mánaða verðbólga verður þá 3,4% en nú er hún 4,3%. Hér er því um að ræða verulega lækkun verðbólgunnar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Við teljum að þetta muni draga úr þeim kjarasamningsbundnu hækkunum sem við er að búast við endurskoðun kjarasamninga í haust. Einnig dregur þetta úr verðbólguvæntingum. Af þessum sökum ætti þetta að draga úr þörf fyrir aukið aðhald í peningamálum á næstunni. Áhrifin ættu hins vegar ekki að vera mikil.

Við erum enn þeirrar skoðunar að Seðlabankinn bankinn muni hækka stýrivexti sína 3. júní um allt að 0,5 prósentustig og að bankinn verði kominn með vexti sína í 10% fyrir árslok. Breyting vísitölu neysluverðs breytir þó áhættumati okkar þannig að við teljum minni líkur nú en áður á því að bankinn fari með vexti sína yfir 10%," segir í Morgunkorninu.