Útlit er fyrir að verðbólga verði búin að éta upp alla þá 7% hækkun launa fyrir næstu áramóti sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Af þeim sökum verður mikill þrýstingum á að hækka laun frekar þegar samningarnir verða endurskoðaðir í janúar.

Þetta segir greining Íslandsbanka um hækkun launavísitölunnar sem Hagstofan birti í morgun.

Bent er á að núverandi samningar hljóði upp á 3,25% hækkun launa á fyrstu þremur mánuðum næsta árs gegn þeim skilyrðum að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans, gengisvísitala króna verði 190 stig og að  kaupmáttur hafi aukist yfir árið. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni dagsins hverfandi líkur á að þessi skilyrði verði uppfyllt, ekki síst þar sem útlit er fyrir að kaupmáttaraukning verði innan við 1% á árinu, verðbólga verði 4,4% og útilokað að krónan verði á þeim slóðum sem kjarasamningar kveða á um.