*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 8. maí 2013 11:48

Verðbólga eykur virði eigna lífeyrissjóðanna

Hrein eign lífeyrissjóðanna hefur aukist um 11,8% í krónum talið síðan í mars í fyrra.

Ritstjórn

Verðtryggingin og 1,6% hækkun á vísitölu neysluverðs í febrúar er helsta ástæða þess að eignir lífeyrissjóðanna jukustu um tæpar 30 milljarða króna í mars. Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 2.474 milljörðum króna í lok marsmánuðar og jukust þær um 1,2% á milli mánaða. Eignin hefur aukist um 11,8% í krónum talið síðan í mars í fyrra. Raunaukning að teknu tilliti til verðbólgu nemur 7,6%.

Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka að eign lífeyrissjóðanna í íbúðabréfum og öðrum ríkistryggðum íbúðaskuldabréfum hækkaði um tæpa 15 milljarða króna á milli mánaða. Það jafngildi 2,3% aukningu. Reyndar er bent á að sjóðirnir virðist hafa bætt nokkuð við íbúðabréfaeign sína í mánuðinum. Því til viðbótar jókst virði sjóðfélagalána um 1,6% í mánuðinum en lífeyrissjóðirnir lána eingöngu verðtryggð lán til sjóðfélaga.