Vísitala neysluverðs hækkar um 0,45% frá fyrri mánuði og hefur nú hækkað um 5,1% síðastliðna tólf mánuði. Verðbólgan hækkar því um 0,3 prósentustig frá nóvembermánuði þegar hún mældist 4,8%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar .

Verðbólgan hefur mælst yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands frá því í janúar síðastliðnum. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar mældist síðast hærri í júní 2012 en þá var hún 5,4%.

Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 10,8% á milli mánaða sem höfðu 0,14% áhrif á vísitöluna. Verð á mat- og drykkjavörum hækkaði um 0,7% frá fyrri mánuði. Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,6% frá nóvembermánuði.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,37% á milli mánaða og hefur nú hækkað um 3,3% á ársgrunni.