Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital áætlar að vísitala neysluverðs (vnv) muni hækka um 0,31% í desember eða jafn mikið og téð vísitala hefur hækkað í þessum mánuði á síðustu fimm árum. Ef spáin gengur eftir mun tólf mánaða hækkun vísitölunnar nema 3,7%.

Áætlað er að hækkun á flugfargjöldum hafi mest áhrif til hækkunar á vísitölunni í desembermánuði eða 0,11%. Fram kemur að ef einhvern tímann sé mikið að gera í flugi á tímum COVID þá sé það um jólin.

Næst mest áhrif kemur til vegna hækkunar á íbúðaverði en gert er ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 0,45% í desember og að liðurinn leggi til 0,075% til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Gert er ráð fyrir að hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði hækki um 0,5% í desember enda jólin „hátíð heimilisbúnaðar- húsgagna og hjálpartækjaverslana,“ og „múmmínálfabollar, lukkutröll, dúkar og servíetturseljast sem aldrei fyrr,“ líkt og segir í greiningunni.

Gert er ráð fyrir að fatnaður muni hækka um 0,7% í desember sem hefur 0,025% áhrif á vnv til hækkunar og tvö prósent hækkun á bókaverði sem hefur 0,02% áhrif á vísitöluna, til hækkunar. Eins og er mælist verðbólga, tólf mánaða breyting vísitölu neysluverðs, 3,5%. Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands er 2,5%.