Vísitala neysluverðs í Bandaríkjunum í júlí hækkaði um 5,4% á ársgrunni en hagfræðingar höfðu spáð því að hækkunin yrði nær 5,3 prósentum. Verðbólgan stóð því óbreytt frá júní síðastliðnum en hún hefur ekki verið hærri síðustu þrettán árin. Vísitalan hækkaði um 0,5% í júlí en til samanburðar hækkaði vísitalan um heil 0,9 prósent í júní.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 4,3% í síðasta mánuði, örlítið lægra en í júní þegar hún nam 4,5%.

Verðbólgan hefur aukist af ýmsum sökum, að því er kemur fram í grein WSJ . Meðal annars jókst verg landsframleiðsla Bandaríkjanna um 6,5% á öðrum ársfjórðungi og bandaríski ríkissjóðurinn varði þúsundum milljörðum dala í stuðningsaðgerðir. Þá jukust neysluútgjöld um 11,8% í kjölfar hækkandi hlutfalls bólusettra og enduropnanna verslana.

Einnig hefur verð hækkað í geirum sem Covid-faraldurinn bitnaði hvað mest á. Verðhækkanir fyrir þessar vörur og þjónustur, líkt og flugfargjöld, afþreyingu og tískuvörur, ættu þó að vera minni eftir því sem verðið nálgast eðlilegri stig.