Árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 9,9% í júní sem er um 1,1 prósentustiga hækkun frá því í júní þegar verðbólgan mældist 8,8%. Vísitalan hækkaði um 1,17% á milli mánaða. Verðbólga hefur ekki mælst meiri á Íslandi frá því í september 2009.

Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkar um 0,94% frá síðasta mánuði og hefur nú hækkað um 7,5% á ársgrunni.

Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, sem nefnist reiknuð húsaleiga, hækkaði um 2,4% á milli mánaða sem leiddi til 0,47% hækkun vísitölunnar. Þá hækkaði verð á flugfargjöldum um 38,3% sem hafði 0,72% áhrif á vísitöluna.

„Hækkun á flugfargjöldum til útlanda er tilkomin vegna verðhækkunar í júlí 19,9% (0,43%), en einnig vegna þess að flugfargjöld voru vanmetin í júní 2022 (0,29%). Hækkun flugfargjalda í júní hefði átt að vera 20,4% ef ekki hefði komið til vanmats. Leiðréttingin hefur ekki áhrif á birt gildi vísitölu neysluverðs í júní.“

Á móti kemur hafa sumarútsölur verið í gangi og lækkaði verð á fötum og skóm um 6,8% frá fyrri mánuði. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði lækkaði um 2,6%.

Verðbólgan jókst töluvert meira en greiningardeildir bankanna áttu von á. Hagfræðideild Landsbankans spáði því að vísitalan myndi hækka um 0,5% á milli mánaða og yrði því 9,2%. Greining Íslandsbanka spáði því að verðbólgan færi upp í 9,3% eftir 0,6% mánaðarlega hækkun.

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur hækkað stýrivexti um samtals tvær prósentur, úr 2,75% í 4,75%, í síðustu tveimur vaxtaákvörðunum í maí og júní. Næsta boðaða vaxtaákvörðun er þann 24. ágúst.