Helstu hlutabréfavísitölur munu falla í Bandaríkjunum og bætur hins opinbera ekki  skila sér nái ráðamenn ekki saman um aðgerðir til að sporna gegn því að landið fari fram af fjárlagaþverhnípinu (e. fiscal cliff) eftir áramótin. Áhrifanna mun gæta strax á öðrum degi nýs árs þegar hlutabréfamarkaðir opna vestanhafs, samkvæmt spá bandaríska vikuritsins Time um áhrifin. Fjárlagaþverhnípið er samblanda af boðuðum skattahækkunum, afnámi skattaafsláttar fyrir einstaklinga í hærri tekjuhópum og afnámi afsláttar á fjármagnstekjur. Við þetta bætast sparnaðaraðgerðir hins opinbera sem nema um 4% af landsframleiðslu og munu sníða bandaríska ríkinu afar þröngan stakk.

Vikuritið hefur birt spá sína fyrir áhrifin í formi dagatals . Ekki er búist við að ástandið batni í febrúar og mars en þá má reikna með að matsfyrirtæki á borð við Moody's lækki lánshæfiseinkunnir Bandaríkjanna sökum neikvæðra áhrifa að þeirra mati af keyrslunni fram af fjárlagaþverhnípinu. Í kjölfarið munu laun lækka og neysla dragast saman.

Dagatal Times