Kjarnaverðbólga í Japan, þ.e. þegar horft er framhjá matvælaverði og hækkunum á neyslusköttum, mældist 0,0% í febrúar, að því er segir í frétt Wall Street Journal. Bent er á að japanski seðlabankinn setti það markmið fyrir tveimur árum að ná verðbólgu upp í 2% innan tveggja ára og því ljóst að það hefur ekki tekist.

Í skýringu WSJ segir að ástæðurnar fyrir því séu hins vegar utan áhrifasviðs bankans. Lækkandi olíuverð og hærri neysluskattar hafi unnið gegn markmiðinu.

Ekki er útilokað að verðhjöðnun mælist í japanska hagkerfinu á næstu mánuðum, enda er búist við því að rafmagnsveitur lækki gjaldskrár sínar. En lægra orkuverð mun hafa hvetjandi áhrif á hagkerfi landsins til lengri tíma og skilja eftir meira fé á reikningum neytenda og fyrirtækja.