Hlutabréf í Símanum hafa hækkað í verði um 4,29% það sem af er degi. Verð hvers hlutar í Símanum er núna 3,65 en var 3,33 við útboð á bréfunum. Velta með bréfin er 812 milljónir það sem af er degi.

Miðað við þær forsendur að fjárfestahópur hafi keypt á 2,5 krónur á hlut má gera ráð fyrir að verðmæti hlutar hópsins hafi hækkað um 555 milljónir og verðmæti hlutar vildarvina Arion banka, sem keyptu á 2,8 krónur á hlut hefur hækkað um 410 milljónir. Samtals hefur verðmæti hlutar þessara aðila sem keyptu í Símanum fyrir útboðið því hækkað um tæpan milljarð miðað við núverandi markaðsgengi.

Þessir aðilar geta þó ekki innleyst þennan hagnað eða gengið að honum sem gefnum þar sem þeim er óheimilt að selja hlut sinn strax. Vildarvinir Arion banka mega ekki selja fyrr en þremur mánuðum eftir að bréfin voru skráð á markað (sem var 15. október) og fjárfestahópurinn má ekki selja fyrr en 1. janúar 2017.

Heildarmarkaðsvirði Símans nemur nú um 33,8 milljörðum og hefur hækkað um tæpa tvo milljarða frá því að opnað var á viðskipti með bréfin.