*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 21. febrúar 2020 17:05

Verðmæti Símans komið í 53 milljarða

Vikan sem leið var grænlituð á hlutabréfamarkaði þar sem sautján félög af tuttugu hækkuðu í verði.

Ritstjórn
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Heildarmarkaðsverðmæti Símans nemur nú ríflega 53,4 milljörðum króna og hefur aldrei verið hærra eftir 4,14% hækkun bréfa félagsins í 788 milljóna viðskiptum dagsins. Bréf Símans hafa hækkað um tæplega 9% í vikunni í tæplega 1,6 milljarða viðskiptum.

Hækkunin í dag kemur í kjölfarið á birtingu félagsins á uppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung 2019 þar sem fram kom að tekjur félagsins hefðu aukist um 4,7% á fjórðungnum, EBITDA um 28,4% auk þess sem afkomuspá fyrir árið í ár gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 10,5-10,9 milljarðar króna en EBITDA ársins 2019 nam 10,5 milljörðum. 

Segja má að verðþróun á hlutabréfamarkaði hafi verið nokkuð kaflaskipt í viðskiptum dagsins en alls hækkuðu níu félög í verði, sjö lækkuðu á meðan fjögur stóðu í stað. Fyrir utan Símann hækkuðu bréf Festi um 2,5% í 796 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf Sýnar hækkuðu um 2% í 84 milljóna viðskiptum. 

Mest lækkun varð hins vegar á bréfum Icelandair sem lækkuðu um 1,2% í 111 milljóna viðskiptum auk þess sem bréf TM og Sjóvá lækkuðu um ríflega 0,7%. 

Mest og flest viðskipti voru með bréf Marel sem hækkuðu um 1,8% í ríflega 1,2 milljarða viðskiptum sem voru 31 talsins. 

Úrvalsvísitalan hækkaði um ríflega 1% í viðskiptum dagsins sem námu í heildina ríflega 4 milljörðum. 

Græn vika að baki

Segja má að vikan sem leið hafi verið fjárfestum góð en alls hækkuðu sautján félög af tuttugu í vikunni. Mest hækkun var á bréfum Símans eða 8,9% en þá hækkuðu bréf Sjóvá um 60% og bréf Skeljungs um 5,7. 

Bréf Eimskip og Origo lækkuðu hins vegar bæði um 1,2% en lítil velta var þó með félögin í vikunni. 

Mest velta í vikunni var með bréf Marel sem hækkuðu um 3,6% í tæplega 3,3 milljarða viðskiptum auk þess sem flest viðskipti voru með bréf félagsins eða 91 talsins en heildarfjöldi viðskipta í vikunni var 737.

Þá hækkaði úrvalsvísitalan um 4% í vikunni en heildarviðskipti á markaðnum námu 17,2 milljörðum króna. 

Stikkorð: Síminn