Bókfært virði 25 verðmætustu eigna fasteignafélagsins Reita nemur samtals 68% af heildarvirði eignasafnsins í lok síðasta árs og skiluðu þær um 64% af leigutekjum félagsins. Verðmætasta eign félagsins er Kringlan en Reitir eiga tæplega 80% af verslunarrými verslunarmiðstöðvarinnar og telja fasteignir á Kringlusvæðinu um 20% af bókfærðu virði eignasafnsins.

Hjá Eik mynda 27 stærstu fasteignir félagsins 80% af bókfærðu virði fasteignasafnsins. Stærsta eign Eikar er Smáratorg 3 sem er 21.919 fermetrar að stærð og er verðmæti þess samkvæmt fasteignamati 4,571 milljarður króna.

Stærstu eignir Regins eru Smáralind og Egilshöll en þær skila um 47% af leigutekjum félagsins.

Stærsti liður í efnahagsreikningi fasteignafélaga eru fjárfestingareignir en samanlagðar fjárfestingareignir allra félagana  eru tæplega 217 milljarðar króna. Þær eru metnar á gagnvirði samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Þar af leiðandi vega reiknaðar matsbreytingar þungt í bókum félagsins. Af þessum sökum er helst litið til rekstrarhagnaðar fyrir matsbreytingar og afskriftir til að meta grunnrekstur fasteignafélaga en hann nam tæpum 12 milljörðum samanlagt á síðasta ári hjá félögunum þremur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .