Stórfyrirtækið Merlin Entertainments, sem rekur meðal annars Legoland, Sea Life og Madame Tussauds, hyggst taka upp dýnamíska verðlagningu (e. surge pricing/dynamic pricing). Financial Times greinir frá þessu.

Breytingin þýðir að miðar í skemmtigarða og söfn verða dýrari eftir því sem eftirspurnin er meiri. Þetta er sama verðmódel og flugfélög og hótel hafa notað um árabil.

Eigendur veitingastaða og kvikmyndahúsa hafa smám saman verið að færa sig yfir í þetta nýja módel. Það getur þó verið tvíeggja sverð eins og sannaðist þegar skyndibitakeðjan Wendy’s í Bandaríkjunum tilkynnti að hún hygðist taka upp dýnamíska verðlagningu.

Neytendur mótmæltu á samfélagsmiðlum og bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Elizabeth Warren sakaði keðjuna um óþarfa verðhækkanir. Þegar yfir lauk hætti Wendy’s við en keðjan hafði þá eytt 20 milljónum dollara í gervigreindarforrit sem átti að sjá um verðlagninguna.