Dæmi eru um að verð á einstökum vöruflokkum dagvöru, svo sem kaffi, te og pasta, hafi hækkað um 100% síðastliðin sex ár. Aðrir vöruflokkar hafa hækkað minna, að sögn Benedikts Árnasonar, aðalhagfræðings Samkeppniseftirlitsins.

Benedikt hélt erindi um verðþróunina á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins í morgun. Á sama tíma var skýrsla Samkeppniseftirlitsins um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði kynnt. Í skýrslunni er lýst þeim aðstæðum sem nýir og smærri smásalar standa frammi fyrir í verðsamkeppni.

Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að ekki séu vísbendingar um að verð á dagvörum hafi hækkað meira en gengisþróun og verðhækkanir á sömu vörum og hráefni frá birgjum gáfu tilefni til.