Íslenska krónan hefur styrkst , en Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Gray Line, segir gengi krónunnar og þróun hennar vera eina helstu áskorun ferðaþjónustuaðila í dag. Ferðamönnum þykir Ísland líklega upp að ákveðnu marki vera dýrt, sérstaklega ef krónan heldur áfram að styrkjast, en hegðun ferðamanna er nú allt öðruvísi en fyrir hrun.

Styrking krónunnar hefur verið mikil undanfarið og gæti orðið enn meiri. Hefur gengið þegar haft áhrif?

„Ein helsta áskorun ferðaþjónustuaðila í dag er gengi íslensku krónunnar og hvernig það er að þróast. Allt svona hefur áhrif, sérstaklega þar sem við erum að semja um verð marga mánuði fram í tímann. Þegar gengið hreyfist svona til hefur það klárlega áhrif á heildarrekstur allra félaga í ferðaþjónustu. Svo eru fleiri áhrifaþættir á borð við „Brexit“, pundið hefur veikst mikið og ferðahegðun Breta gæti veriðspurningamerki. Verða þeir áfram svona stór partur af okkar ferðamönnum eða mun það breytast?“

Hefurðu áhyggjur af því að það gæti hægst á þeirri fjölgun ferðamanna sem hefur verið undanfarin ár?

„Ég held að það hægist á sumar-traffíkinni og mér sýnist spár benda til þess að það verði ekki svona rosaleg aukning þar líkt og hefur verið á þessum vetrarmánuðum. Við erum að undirbúa okkur fyrir aðeins meira jafnvægi þar, allavega í bili, en við sjáum samt að hótelrými sumarið 2017 eru að verða uppseld þó við séum bara nýkomin inn í veturinn. Framboðið þar og eftirspurn hefur áhrif á hversu margir koma, en hins vegar er það staðreynd að við erum að sjá 30-40% aukningu miðað við september-október í fyrra og þar hafði verið gríðarleg aukning frá árinu áður.“

Hvernig finnst þér Íslandi hafa tekist að standa straum af þessari gríðarlegu fjölgun ferðamanna undanfarin ár?

„Bæði vel og illa. Við vorum kannski svolítið óundirbúin upp að ákveðnu marki en mér finnst við vera að byggja okkur ágætlega upp. Landið býður alveg upp á að við tökum á móti miklum fjölda ferðamanna en auðvitað þurfum við að passa upp á innviðina. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir því að svona risastór atvinnugrein í mikilli stækkun þarf auðvitað mannafla sem er ekkert endilega til á Íslandi. Við þurfum því líka að vera undir það búin að hingað mun koma fólk sem fer að vinna í ferðaþjónustu og gæti flætt inn í aðra geira, og því gæti þurft að ráðast í innviðabyggingu svolítið í anda þess sem var fyrir nokkrum árum þegar við byggðum skóla og heilsugæslu fyrir austan vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar.“

Heldurðu að útlendingum fari að finnast of dýrt að koma hingað út af krónunni, líkt og var tilfellið fyrir hrun?

„Ég held við munum aldrei horfa upp á sömu aðstæður og fyrir hrun. Ég held að ferðamönnum þyki Ísland upp að ákveðnu marki vera dýrt, sérstaklega ef krónan heldur áfram að styrkjast, en við erum hins vegar ekki á sama stað og áður því hegðun ferðamanna er allt öðruvísi. Fólk er að ferðast miklu meira en það gerði, það fer í styttri ferðir og ferðirnar takmarkast ekki lengur við þriggja vikna sumarfrí. Við munum ekki fara til baka einhver 10-15 ár heldur erum við að þróast og ungt fólk í dag er alvant því að ferðast og eyða peningi í flug, hótel og bíla, á meðan eldri kynslóðir gerðu það mun sjaldnar. Fólk hegðar sér allt öðruvísi í kaupum á ferðaþjónustu í dag en fyrir tíu árum síðan.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð .