Verið er að ganga frá nýju gjaldeyrisláni að fjárhæð að minnsta kosti 250 milljónir evra. Þetta kom fram í ræðu Geirs H. Haarde forsætisráðherra á Alþingi rétt í þessu. Hann segir að kjörin á láninu séu mun hagstæðari en svokallað skuldatryggingaálag á ríkissjóð gefi til kynna.

Með hinu nýja láni nemur gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands, ásamt gjaldeyrisskiptasamningum við norræna banka og lánalínum ríkissjóðs og Seðlabankans, jafnvirði rúmlega 500 milljarða króna.

„Á miðju ári 2006 var hann rúmlega 100 milljarðar króna á sambærilegu gengi," sagði Geir. „Gjaldeyrisforði okkar hefur því fimmfaldast á þessum stutta tíma og er nú hlutfallslega mun meiri en í flestum nágrannalöndum ef miðað er við landsframleiðslu."

Og hann bætti við: „Það er eins og þeir sem nú tala mest um að auka þurfi gjaldeyrisforðann séu ekki alveg með á nótunum."

Ríkisstjórnin ætlar að auka stöðugleikann

Geir sagði í ræðu sinni um efnahagsmál að áfram væri unnið að mörgum öðrum atriðum sem öll miðuðu að því að mæta hinum tímabundna vanda okkar. „Ríkisstjórnin mun gera það sem í hennar valdi stendur til að taka á vandanum til skemmri tíma og auka stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma. Fjárlagafrumvarpið og stefnuræða mína í byrjun október munu bera þess merki," sagði hann.