„Samtök iðnaðarins hafa eindregið hvatt til þess að leið verðmætasköpunar sé rétta leiðin út úr efnahagsvanda Íslendinga. Við erum mótfallin skattahækkunarleiðinni. Við teljum að umtalsverðar skattahækkanir, eins og nú hefur verið gripið til, geri ekki annað en að dýpka kreppuna. Það er verið að skattleggja samfélagið niður. Okkur er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sveitarfélaga að sjálfsögðu ljós. En við teljum að leysa eigi fjárhagsvanda þeirra með því að breikka skattstofnana með aukinni atvinnu og með öflugri hvatningu til fjárfestinga í atvinnulífinu," sagði Helgi Magnússon, endurkjörinn formaður Samtaka iðnaðarins, á iðnþingi í dag.

Hann sagði að það væri hreinræktuð kreppustefna að eyða orkunni í að takast á um endalausan niðurskurð og skattahækkanir í stað þess að laða að atvinnulífinu alla skynsamlega og arðsama fjárfestingu sem völ væri á.

Gagnrýnir umhverfisráðherra

„Framganga stjórnvalda hefur hins vegar verið þannig að hún hræðir erlenda fjárfesta frá þegar við þurfum mest á þeim að halda. Ítrekaðir tafaleikir umhverfisráðherra, m.a. vegna synjunar á staðfestingum í tengslum við virkjun neðri hluta Þjórsár og áður vegna svonefndrar suðvesturlínu á Reykjanesi, eru alvarleg dæmi um það. Hér er verið að knýja fram pólitíska stefnu sem gengur gegn hagsmunum þjóðarinnar og leiðir af sér minni hagvöxt en ella, meira atvinnuleysi, minni kaupmátt og verri stöðu ríkissjóðs og sveitarfélaga til að verja velferðar-og menntkerfin í landinu," sagði Helgi.