Norski lögmaðurinn Geir Lippestad er væntanlegur til Íslands í næstu viku. Lippestad er þekktur fyrir að verja Anders Behring Breivik sem sakfelldur var fyrir fjöldamorðin í Stjórnarráðshverfinu í Osló og í Útey í Noregi þann 22. júlí 2011. Hann verður gestur á fundi Lögmannafélags Íslands sem fram fer á Hilton Hótel Nordica, klukkan fjögur á föstudaginn.

Lippestad mun fjalla um hlutverk og skyldur verjenda í réttarríki, einkum í málum sem fá mikla athygli. Lippestad er þekktur fyrir að ræða opinskátt um þær ákvarðanir sem hann, sem verjandi, þurfti að taka og hvernig hægt er að standast álag sem slíkum ákvörðunum fylgir, m.a. vegna þeirra grundvallar gilda sem viðurkennd eru í réttarríki.