Hin nýskipaða ríkisstjórn Verkamannaflokksins undir forystu Gordon Brown forsætisráðherra hyggst notfæra sér það sem margir hverjir hafa skynjað sem áhugaleysi David Cameron, leiðtoga Íhaldsflokksins, í garð breskra atvinnurekanda með því að bæta til muna tengsl stjórnvalda og viðskiptalífsins. Þetta kemur fram í viðtali við John Hutton, nýjan viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar, í Financial Times á mánudaginn, en þetta er fyrsta viðtalið sem Hutton veitir eftir að hann var skipaður ráðherra.

Hutton ásakaði David Cameron um að hafa gert "mikil mistök" í viðleitni sinni til að umbreyta Íhaldsflokknum frá því að vera talinn fyrst og fremst flokkur viðskiptalífsins og gagnrýndi það sem hann kallaði "heimskulegar tillögur" Cameron í því samhengi, meðal annars hugmyndir hans um kolvetniskvóta sem hann féll síðar frá. Viðskiptaráðherrann sagði að í kjölfarið væri núna kominn upp ákjósanleg staða fyrir Verkamannaflokkinn til að taka við af Íhaldsflokknum sem hinn "eiginlegi flokkur viðskiptalífsins."

Þessi ummæli Hutton komu aðeins degi áður en fjórir framkvæmdastjórar fjárfestingarsjóða og einkahlutafélaga mættu á fund sérstakrar nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins, sem hefur það verkefni að endurskoða skattaumhverfi einkahlutafélaga (e. private equity), en þau hafa sætt vaxandi gagnrýni undanfarin misseri af stjórnmálamönnum þar í landi. Hutton vildi ekki tjá sig sérstaklega um hvort slík fyrirtæki greiddu of lítið hlutfall af hagnaði sínum í skatta, en hins vegar lagði hann áherslu á það framlag sem þessi geiri viðskiptalífins legði til samfélagsins. Þau ummæli viðskiptaráðherrans eru talin endurspegla viðleitni stjórnvalda til að stíga varlega til jarðar við að ráðast í aðgerðir sem myndu setja íþyngjandi regluverk í kringum starfsemi slíkra félaga - þau gætu annars einfaldlega flutt starfsemi sína til annarra landa.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.