Verkfræðistofan Verkís mun næsta haust flytja inn í húsnæðið að Ofanleiti 2 sem er í eigu Regins fasteignafélags. Áætlað er að hluti fyrirtækisins geti flutt inn næsta haust en flutningarnir munu standa yfir næstu tvö ár. Í húsnæðinu eru leigutakar sem munu þurfa að flytja sig annað en Ofanleiti 2 er um 8.000 fermetrar.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir að leigusamningurinn við Verkís sé til 20 ára en um leið kaupir Reginn húsnæði sem Verkís hefur verið starfandi í. Það er húsnæði í Reykjavík, á Ísafirði, Egilsstöðum og Selfossi sem um ræðir. Þetta kom fram á afkomufundi Regins á miðvikudaginn þegar Helgi kynnti ársuppgjör fyrirtækisins.