Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á matvöru í lágvöruverðsverslunum og öðrum stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu í gær, þriðjudag.

Nóatún var oftast með hæsta verðið í könnuninni. Vísbendingar eru um að verðmunur á milli lágvöruverðsverslana og annarra stórmarkaða sé að minnka.

Þetta kemur fram í nýrri verðkönnun ASÍ sem birt er á vef sambandsins í dag.

Þar kemur fram að í Bónus var lægsta verð á 31 af 50 vörum sem kannaðar voru en Fjarðarkaup og Kaskó voru næst oftast með lægsta verðið eða í 7 tilvikum.

Nóatún reyndist með hæsta verðið á 34 af 50 vörum sem skoðaðar voru en Hagkaup var næst oftast með hæsta verðið eða á 11 vörum.

Þá kemur fram að mestur verðmunur í könnuninni var á kílóverði af heilum ferskum kjúklingi sem var dýrastur kr. 1.070 í Nóatúni og Fjarðarkaupum, en ódýrastur kr. 525 í Nettó sem er 104% verðmunur.

Minnstur verðmunur reyndist hins vegar á kílóverði af forverðmerktum Skólaosti sem kostaði kr. 1.190 í Bónus, Krónunni og Fjarðarkaupum þar sem veittur er 5% afsláttur af merktu verði við kassa, en kr. 1.253 í öllum öðrum verslunum.

Sjá nánar á vef ASÍ.