Verð á vörukörfu ASÍ breyttist lítið í flestum verslunum milli 17. og 19. viku, þ.e. síðustu viku aprílmánaðar og 2. viku í maí samkvæmt frétt á heimasíðu samtakanna. Mest hækkaði verð vörukörfunnar í Nóatúni, um 1,9%. Í 11-11 hækkaði verð um 1,5% og í Samkaupum-Úrval um tæpt 1%. Mest lækkaði verð körfunnar í Nettó, um 2,7%. Litlar breytingar urðu á verði vörukörfunnar í öðrum verslanarkeðjum, en þar reyndist breytingin innan við 0,5% á tímabilinu. Þetta er meðal niðurstaðna úr verðlagseftirliti sem ASÍ hefur staðið fyrir á síðustu vikum til að fylgjast með verðbreytingum í matvöruverslunum.

Verðlagseftirlit ASÍ mælir breytingar á verði vörukörfu sem getur endurspeglað almenn innkaup meðalheimilis. Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, t.d. brauðmeti, morgunkorn, pasta, kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, pakkavörur, kaffi, gos, safa, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis. Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirfarandi verslanakeðjum: Í lágvöruverðsverslunum Bónus, Krónunni, Nettó og Kaskó og í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni og SamkaupumÚrval og Klukkubúðunum 10-11, 11-11 og Samkaupum-Strax.