Hilmar Konráðsson forstjóri Verktaka Magna ehf. segir í Viðskiptablaðinu í dag að framkvæmdir fyrirtækisins við gerð nýrrar vegtengingar um svokallaðan Hlíðarfót á Reykjavíkurflugvelli gangi vel. Að framkvæmdunum standa Framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar, Mannvirkjaskrifstofa, Orkuveita Reykjavíkur, Gagnaveita Reykjavíkur og Míla.

Upphaflegur framkvæmdatími var mjög knappur. - „Það átti að bjóða þetta út í apríl og verkið átti að vera búið 7. desember. Tilboð voru þó ekki opnuð fyrr en 29. júlí en engu var þá breytt með verklok. Við erum með mikið af tækjum á svæðinu og um 30 manns, en það er samt útilokað að við náum þessu fyrir 7. desember. Nú er búið að ákveða verklok í febrúar, en við reynum hvað við getum á meðan veðrið er svona gott."

Auk vegagerðarinnar fylgja verkinu miklar framkvæmdir við vatns- og línulagnir. Níu tilboð bárust í verkefnið og voru Verktakar Magni ehf. með lægsta tilboðið og hljóðaði það upp á tæplega 375 milljónir króna, eða 69,55% af kostnaðaráætlun sem nam rúmalega 539,1 milljón króna.

Magni gerði einnig lægra frávikstilboð sem nam 67,14% af kostnaðaráætlun, en þann 11. ágúst samþykkti Innkauparáð Reykjavíkurborgar að ganga að aðaltilboði verktaka Magna ehf.

Næst lægsta aðal tilboðið kom frá Vélaleigu A.Þ. ehf. upp á 70,14%, en síðan kom Verktakafélagið Glaumur ehf. með 71,32% og Nesvélar ehf. með 71,56% af kostnaðaráætlun.

Hilmar segist aldrei hafa boðið svo lágt í verk áður enda ljóst að útilokað sé að ná einhverju út úr verkum sem eru unnin á undir 70% af kostnaðaráætlun. „Það er bara verið að lengja í hengingarsnúrunni með slíku."