Stjórn Landsvirkjunar mun á fundi sínum í dag fá í hendurnar áfangaskýrslu vegna viðræðna um orkuverð við Alcan á Íslandi en fyrirtækið vinnur sem kunnugt er að því að stækka álver sitt í Straumsvík úr 180.000 tonna ársframleiðslu upp í 460.000 tonn.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið í gær að viðræðurnar væru að nálgast lokaniðurstöðu. Heimildir Viðskiptablaðsins segja að verðrammi í viðræðunum liggi fyrir. Eina óvissuatriðið liggur að þeim tímaramma sem samningurinn nær til eða með öðrum orðum, hve langan tíma Alcan hefur forgang að orkunni en félagið hefur ekki fengið leyfi til framkvæmda í Hafnarfirði.

40% af þeirri orku sem þarf vegna stækkunarinnar í Straumsvík kemur frá Orkuveitu Reykjavíkur og er búið að ganga frá samningi vegna þess. Viðræðurnar við Landsvirkjun miðast við að félagið fái það sem upp á vantar, eða um 60% orkunnar, þaðan. Landsvirkjun hefur um nokkurra ára skeið unnið að undirbúningi þriggja virkjana í Neðri-Þjórsá og er gert ráð fyrir að orkan fyrir Straumsvík komi þaðan. Viðræður við landeigendur munu vera langt komnar.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Hrannari Péturssyni, upplýsingafulltrúa Alcan, gera áætlanir félagsins ráð fyrir að stækkunin kosti um 1,2 milljarða dollara eða um 84 milljarða króna. Félagið hefur miðað við að hefja framkvæmdir árið 2008 og að framleiðsla hefjist í lok árs 2010. Hugsanlegt er að greiðslur Alcan á Íslandi til Hafnarfjarðarbæjar geti aukist úr 100 milljónum króna á ári, eins og það er í dag, í um 800 milljónir króna eftir stækkunina.

Til að hægt sé að hefja framkvæmdir þarf að liggja fyrir samþykkt deiliskipulag fyrir verksmiðjusvæðið í Hafnarfirði. Ár er nú liðið síðan Alcan lagði fram tillögur að nýju deiliskipulagi. Félagið hafði fengið heimild bæjaryfirvalda til þess að vinna það deiliskipulag gegn skilyrðum bæjarins. Það skipulag fór í almenna kynningu og barst töluvert af athugasemdum. Vinnuhópur á vegum Alcan og Hafnarfjarðarbæjar hefur starfað síðan í haust við að vinna úr þeim athugasemdum. Að sögn Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra er þessi vinnuhópur kominn töluvert langt áleiðis með sína vinnu. Sagðist hann eiga von að niðurstaða um breytt deiliskipulag lægi fyrir um áramótin. Í framhaldi þess myndi bæjarstjórn taka ákvörðun um tímasetningu og fyrirkomulag íbúakosningar þar sem deiliskipulagstillagan liggur fyrir. Lúðvík sagðist aðspurður gera sér vonir um að íbúakosning yrði í febrúar eða mars á næsta ári. "Markmiðið er að klára þetta allt sem hraðast þegar málið liggur fyrir," sagði Lúðvík.