*

fimmtudagur, 19. september 2019
Innlent 30. janúar 2019 17:38

Verri afkoma hjá Högum

Hagar högnuðust um 1,8 milljarða á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins 2018 en það er lakari afkoma en árið 2017.

Ritstjórn
Finnur Árnason, forstjóri Haga
Haraldur Guðjónsson

Hagar högnuðust um 1,8 milljarða á fyrstu níu mánuðum rekstrarársins 2018 samanborið við 1,9 milljarða á sama tímabili 2017

Vörusala tímabilsins nam 56.255 milljónum króna. Framlegð tímabilsins var 24,1%. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 3.110 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar námu 52.737 milljónir króna. í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall var 45,0% í lok tímabilsins.

Rekstrarafkoma tímabilsins

Vörusala tímabilsins nam 56.255 milljónum króna, samanborið við 54.084 milljónir króna árið áður. Söluaukning tímabilsins milli ára í krónum talið er 4,0%. Í matvöruverslanahluta félagsins hafa seld stykki aukist um 1,0% og viðskiptavinum hefur fjölgað um 1,6% milli ára. Níu mánaða meðaltal vísitölu neysluverðs milli rekstrarára hefur hækkað um 2,65% en hækkun vísitölunnar án húsnæðis var 1,04%. Vísitala innkaupa í erlendum gjaldmiðlum, þar sem vegnar eru innkaupamyntir Haga, sýnir veikingu íslensku krónunnar, eða um 5,2% á samanburðartímabilinu.

Framlegð félagsins var 13.552 milljónir króna, samanborið við 13.393 milljónir króna árið áður eða 24,1% framlegð samanborið við 24,8% á fyrra ári. Rekstrarkostnaður í heild hækkar um 238 milljónir króna eða 2,3% milli ára en kostnaðarhlutfallið lækkar úr 19,2% í 18,8%. Á tímabilinu eru gjaldfærðar 236 milljónir króna í einskiptiskostnað vegna kaupa félagsins á Olís og DGV en á sama tímabili á fyrra ári nam gjaldfærslan 26 milljónum króna. Þá var einnig gjaldfært á tímabilinu 50 milljónir króna vegna tapaðra viðskiptakrafna í heildsöluhluta félagsins.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 3.110 milljónum króna, samanborið við 3.272 milljónir króna árið áður. EBITDA-hlutfall var 5,5%, samanborið við 6,0% árið áður.

Hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.764 milljónum króna, sem jafngildir 3,1% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 1.933 milljónir eða 3,6% af veltu.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi tímabilsins

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 52.737 milljónum króna. Fastafjármunir voru 34.279 milljónir króna og veltufjármunir 18.458 milljónir króna. Þar af eru birgðir 8.728 milljónir króna.

Eigið fé félagsins var 23.726 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 45,0%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 29.011 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 7.137 milljónir króna. Stór hluti vaxtaberandi skulda er á gjalddaga í október 2019 og eru því 8.890 milljónir króna á meðal skammtímaskulda í árshlutareikningnum, en þar á meðal er fjármögnun vegna samrunans, sem var til skamms tíma. Unnið er að endurfjármögnun samstæðunnar.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 1.676 milljónum króna, samanborið við 1.453 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 5.784 milljónir króna en þar af voru 4.967 milljónir króna vegna kaupa félagsins á Olís og DGV. Fjármögnunarhreyfingar voru 4.659 milljónir króna en þar af voru 5.282 milljónir króna vegna skammtímafjármögnunar í tengslum við samrunann. Handbært fé í lok tímabilsins var 773 milljónir króna, samanborið við 232 milljónir króna árið áður.

Staðan og framtíðarhorfur

Þann 7. janúar sl. var tilkynnt um breytta afkomuspá félagsins en EBITDA áætlun fyrir rekstrarárið er nú 4.600-4.700 milljónir króna, að undanskildum kostnaði við samruna og einskiptiskostnað og án tekjuáhrifa frá Olís og DGV. Þá hefur fjárfestingaráætlun einnig verið lækkuð og er hún nú 1.200-1.400 milljónir króna. Líkt og rakið var í fyrrnefndri tilkynningu eru helstu ástæður fyrir lægri afkomuspá gengisfall íslensku krónunnar, seinkun á opnun nýrrar Bónusverslunar í Skeifunni og flutningi á verslun Bónus í Mosfellsbæ, ásamt lokun og sölu þriggja Bónusverslana skv. sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið.

Fyrir liggur endurskoðaður efnahagsreikningur Olís fyrir fyrstu 11 mánuði ársins 2018. EBITDA félagsins ásamt EBITDA afkomu DGV fyrir tímabilið er 2.274 milljónir króna. Rekstrarári Olís og DGV verður breytt til samræmis við rekstrarár Haga, þ.e. tímabilið frá 1. mars til febrúarloka ár hvert. Ársreikningar félaganna fyrir árið 2018 verða því 14 mánuðir. Eins og áður segir verða rekstrarreikningar Olís og DGV hluti af samstæðu Haga frá og með 1. desember 2018 en efnahagsreikningur félaganna er hluti af reikningsskilunum 30. nóvember 2018.

Afhending þeirra eigna sem Högum og Olís bar að selja skv. sáttinni hefst 1. febrúar nk. þegar verslun Bónus á Hallveigarstíg verður afhent. Eignirnar verða svo afhentar hver af annarri en gera má ráð fyrir að afhendingu eigna sem Högum bar að selja verði lokið í mars en afhendingu eigna Olís í apríl. Söluandvirðið er greitt við afhendingu fyrstu eignar og því munu þær eignir sem Hagar selja hafa áhrif á sjóðstreymi þess rekstrarárs sem nú er að ljúka en áhrifin af sölu eigna Olís koma ekki fram í sjóðstreymi fyrr en á nýju rekstrarári.

Í apríl nk. rennur út leigusamningur Hagkaups í Borgarnesi en þar hefur verið starfrækt sérvöruverslun sl. 12 ár. Leigusamningurinn verður ekki endurnýjaður og mun verslunin loka.

Höfuðstöðvar Olís munu á sumarmánuðum flytja frá Katrínartúni 2 í Skútuvog 5. Skútuvogur 5 er í eigu Haga. Árleg áhrif á samstæðureikning félagsins verða um 110 milljónir króna frá og með september 2019 að telja.

Stikkorð: Hagar Uppgjör