Sex verslunum í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri hefur verið lokað síðan í haust og til stendur að loka tveimur til viðbótar. Þá hyggjast eigendur tveggja annarra verslana flytja reksturinn úr Glerártorgi. Þetta kemur fram á vef RÚV en þar segir að verslunareigendur séu ósáttir við hátt leiguverð í verslunarmiðstöðinni.

Ragnar Sverrisson, formaður Kaupmannafélags Akureyrar, hefur áhyggjur af stöðunni.

„Já mönnum finnst óvenju mikið vera að fækka verslunum á Akureyri á þessu misseri,“ segir Ragnar í samtali við RÚV. „En það er nú mjög algengt að það séu hrókeringar í verslunum, eins og öðrum fyrirtækjum, en þetta er óvenju mikið núna.“

Akureyrarstofa hefur látið málið til sín taka og hefur verið farið fram á að atvinnumálafulltrúi bæjarins heyri hljóðið í verslunareigendum og athugi hver ástæðan sé fyrir þessum lokunum.

Fasteignafélagið Eik keypt Glerártorg af SMI ehf. fyrir skömmu.