Óttast er að allir 150 farþegar flugvélarinnar sem fórst í frönsku ölpunum í morgun hafi látist. Um er að ræða versta flugslys sem hefur átt sér stað í landinu í 34 ár, samkvæmt Financial Times .

„Þetta er harmleikur,“ sagði Francois Hollande, forseti Frakklands, í sjónvarpsávarpi sínu fyrir stundu og bætti við að aðstæður slyssins bentu til þess að enginn hefði lifað af.

144 farþegar voru um borð í vélinni ásamt sex manna áhöfn; tveimur flugmönnum og fjórum flugfreyjum. Vélin var á vegum þýska lággjaldaflugfélagsins Germanwings, og var á leið frá Barcelona til Dusseldorf þegar slysið átti sér stað.

Þegar tíðindi bárust af slysinu lækkaði gengi hlutabréfa í bæði Airbus og Lufthansa, sem er móðurfélag Germanwings. Lækkuðu bréf fyrrnefnda félagsins þannig um 3,1% en hins síðarnefnda um 3,9%.

Slysstaðurinn:

© european pressphoto agency (european pressphoto agency)